Sölvi Rúnar kjörinn formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags

Sölvi Rúnar

Þann 27. febrúar sl. fór fram aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Að loknu áhugaverðu erindi Sigurðar Thorlacius um áhrif matvælaframleiðslu á líffræðilegan fjölbreytileika var gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa. Þar á meðal fór fram kjör stjórnar félagsins.

Líffræðingurinn og doktorsneminn Sölvi Rúnar Vignisson hjá Þekkingarsetri Suðurnesja var þar kjörinn formaður félagsins en félagið er eitt elsta starfandi félag landsins og gefur m.a. út Náttúrufræðinginn, sem er alþjóðlegt fræðslurit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði, bæði fræðilegar og almennar.

Við mælum eindregið með því að allir skrái sig í félagið og fari þar með í áskrift að Náttúrufræðingnum í heimsendingu og styrki þannig íslensk náttúruvísindi og náttúruvernd.  

Við óskum Sölva Rúnari innilega til hamingju með kjörið en hér að neðan má sjá nýja stjórn félagsins sem kjörin var á aðalfundinum 27.febrúar sl.

  • Sölvi Rúnar Vignisson, formaður.
  • Sveinn Kári Valdimarsson, varaformaður
  • Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður.
  • Benedikt Traustason, vefstjóri.
  • Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri.
  • Einar Pétur Jónsson, kynningarstjóri.
  • María Helga Guðmundsdóttir, ritari.

Sölvi Rúnar í Víkurfréttum

Þann 16.febrúar sl. hélt líffræðingurinn og doktorsneminn Sölvi Rúnar Vignisson einstaklega áhugavert fræðsluerindi um ferðir farfuglanna og rannsóknir sínar þeim tengdum undanfarin ár.

Fræðsluerindið fór fram fyrir þéttsettnum náttúrusal Þekkingarseturs Suðurnesja og var haldið í samstarfi við Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjum en Sölvi Rúnar starfar einmitt í Þekkingarsetri Suðurnesja við rannsóknir sínar á ýmsum far- og staðfuglum. Þá er Sölvi tíður ráðgjafi í ýmsu sem tengist fuglalífi á Suðurnesjum og má nefna sem dæmi byggingu á sérstöku fuglaskoðunarhúsi í Reykjanesbæ fyrir stuttu.

Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun um störf Sölva í nýjasta tölublaði Víkurfrétta  hér og sömuleiðis spila viðtal við hann sem birtist í nýja Suðurnesjamagasíni Víkufrétta.

Við þökkum Víkurfréttum fyrir frábæra umfjöllun um þessi mikilvægu og mögnuðu störf okkar manns og hvetjum áhugasama að líta við í setrið og virða fyrir sér ýmislegt eða jafnvel láta sjá sig næst þegar Sölvi Rúnar heldur slíkan fyrirlestur og fræðsluerindi.

Þekkingarsetrið hlýtur styrki úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja

Föstudaginn 3. febrúar sl. voru afhentir styrkir úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja fyrir starfsárið 2023.

Fallegur óperusöngur hljómaði og veglegar veitingar voru færðar fram í Hljómahöll en alls hlutu 40 verkefni styrk úr sjóðnum.

Þekkingarsetrið hlaut styrk til framleiðslu á verkefni sínu Fróðleiksfúsi sem er gagnvirk og skemmtileg leið fyrir yngri gesti seturssins til að kynnast munum náttúrusýningarinnar okkar og náttúrunnar um kring.

Einnig hlaut Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum, sem starfar innan seturssins styrk til áframhaldandi rannsókna sinna á mengun sjávar á Suðurnesjum.

Víkurfréttir

Óskum við öllum styrkhöfum innilega til hamingju og þökkum við kærlega fyrir okkur. Við hlökkum mikið til að þróa Fróðleiksfúsa áfram og sýna ykkur afrakstur þess á komandi misserum.

Sjáumst í setrinu!