Heimskautin heilla – L´attraction des pôles
Glæsileg sýning um ævi og starf Jean-Baptiste Charcot
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum í samvinnu við Sandgerðisbæ og fleiri aðila stendur fyrir sýningunni „Heimskautin heilla“ í Þekkingarsetri Suðurnesja.
Sýningin er um franska heimskautafarann Jean-Baptiste Charcot, einn merkasta landkönnuð síðustu aldar en hann fórst með skipi sínu Pourquoi-pas? og áhöfn við Mýrar 1936. Sýningin er í tveimur nýjum sölum þar sem líkt er eftir brú og káetu í skipi frá tíma heimskautafarans. Hún var opnuð 25. febrúar 2007.
Hver var Jean-Baptiste Charcot?
Franski heimskautafarinn, leiðangursstjórinn og læknirinn Jean-Baptiste Charcot (1867– 1936) var einn þeirra merkismanna sem fyrstir könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimsskautin í byrjun síðustu aldar, en meðal annarra þekktra heimskautafara þessa tíma má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary.
Í byrjun 20. aldar stóð Charcot fyrir og stjórnaði tveimur leiðöngrum til að kanna suðurskautið, og hafði þar fyrstur Frakka vetursetu ásamt áhöfn sinni. Eftir fyrri heimsstyrjöldina stjórnaði hann síðan fjölmörgum þverfaglegum vísindaleiðöngrum á norðurslóðir, til Færeyja, Íslands, Jan Mayen og Grænlands.
Rannsóknaskipið Pourquoi-Pas?
Þekktasta skip hans var Pourquoi-Pas? – sérútbúið rannsóknaskip með þremur rannsóknastofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag.
Þann 16. september 1936 lenti skip hans, Pourquoi pas?, í miklu og óvæntu óveðri út af Garðskaga, hraktist upp í Borgarfjörð og fórst á Hnokka út af Álftanesi á Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir, 17 var saknað og fundust aldrei og einn áhafnarmeðlimur komst lífs af.
Mikill Íslandsvinur
Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir. Hann eignaðist fjölmarga vini hér á landi og hélt góðu sambandi við þá allt þar til yfir lauk. Strand Pourquoi pas? var því mikil sorgarfrétt á Íslandi á sínum tíma og til marks um það má nefna að þegar minningarsamkoma um hina látnu var haldin var öllum verslunum í Reykjavík lokað, og mun það vera einsdæmi að erlendum manni sé sýndur viðlíka sómi.
Efni sem ekki hefur verið sýnt áður hérlendis
Sýningunni er ætlað er að varpa ljósi á ævi og starf þessa merka manns. Þar hefur verið leitast við að endurskapa það magnaða andrúmsloft sem ríkti um borð í rannsóknaskipunum á sínum tíma, en auk þess hefur verið safnað saman margvíslegum fróðleik í máli og myndum um æfi Charcots og störf.
Barnabarn Charcots, frú Anna-Marie Vallin-Charcot, hefur lagt sýningunni lið með ýmsu móti, m.a. gefið persónulega muni og skjöl til hennar sem ekki hafa verið sýnd áður. Ennfremur leggja Þjóðminjasafnið, Byggðasafnið Görðum, Byggðasafn Suðurnesja og fleiri aðilar til muni.
Vegleg sýning um merkan mann
Hönnuður sýningarinnar er Árni Páll Jóhannsson, Gagarín ehf sá um framkvæmd hennar, Potemkin hönnun ehf sá um smíðar á innréttingum, skipulag og grafísk hönnun var í höndum Róberts Guillemette, en handrit sýningarinnar skrifaði Friðrik Rafnsson. Reynir Sveinsson hafði umsjón með staðarframkvæmdum. Í verkefnisstjórn sitja þeir Jörundur Svavarsson og Friðrik Rafnsson.
Styrktaraðilar eru Hitaveita Suðurnesja, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sandgerðisbær og Háskóli Íslands.
Hér er um að ræða glæsilega sýningu um þennan stórmerka heimskautafara, leiðangursstjóra og lækni sem jafnframt er nokkurs konar holdgervingur langvinnar og góðrar vináttu milli Íslendinga og Frakka, enda er opnun sýningarinnar hluti af menningarhátíðinni Pourquoi-pas?