Umsóknarfrestur í AWE: Frumkvöðlahraðal fyrir konur

Háskóli Íslands stendur í vetur fyrir frumkvöðlahraðli fyrir konur undir merkjum AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Aðrir samstarfsaðilar eru FKA – félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna.Þetta er í þriðja sinn sem hraðallinn er haldinn.

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. Markmið hraðalsins er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið.

Verkefnið er á vegum bandarískra stjórnvalda og er í boði víða um heim. Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ein staðlota verður haldin á Bifröst í samvinnu við Háskólann á Bifröst.

Virkjum nýsköpunarkraft kvenna

Þekkingarsetrið hvetur til umsóknar í þennan spennandi og öfluga sjóð

Umsóknarfrestur er til og með 9. febrúar. Þú getur sótt um hér.

Heimsókn í FabLab Reykjavík

Þessi misserin er markvisst unnið að stofnun FabLab á Suðurnesjum.
Þekkingarsetur Suðurnesja tekur þátt í þeirri vinnu sem hluti af undirbúningshóp á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS).

Í gærdag fór undirbúningshópurinn í heimsókn í FabLab Reykjavik, sem staðsett er í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og er stærsta FabLab á landinu.
Þar mátti sjá margvísleg töfratæki og tól til ómældrar sköpunar og hönnunarvinnu, svo eitthvað sé nefnt og gaf þessi heimsókn undirbúningshópnum byr undir báða vængi í sinni vinnu að koma FabLab á Suðurnesjum á laggirnar.

Við þökkum frábærar móttökur og deilum hér nokkrum myndum af heimsókninni.

Hér má svo gægjast betur inn í undraheim FabLab útibúa landsins. Hlökkum við til að verða brátt á þeim lista.

Hrekkjavökuskreytingar annað kvöld

Þekkingarsetrið ásamt Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum bjóða gestum og gangandi að koma á sérstakt hrekkjavökuskreytingakvöld í Þekkingarsetrinu annað kvöld frá kl.17.00.

Grasker og ýmiskonar pappírsföndur og notaleg stemming sem hentar fjölskyldufólki sem og öðrum sem huga jafnvel að veisluhöldum á hrekkjavöku 31.október eða um það leyti.

Skráningu fer fram HÉR

Hlökkum til að sjá ykkur!