Námskeið

IMG_3441
Þekkingarsetur Suðurnesja mun í samstarfi við fræðslu- og menntastofnanir, standa fyrir námskeiðum og fyrirlestrum sem tengjast starfssviði setursins og stoðstofnana þess. Fyrstu námskeiðin voru haldin vorið 2013 í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Námskeiðin eru haldin í húsnæði Þekkingarseturs Suðurnesja að Garðvegi 1, Sandgerði nema að annað sé tekið fram í námskeiðslýsingu.

Námskeið á haustönn 2019 og vorönn 2020:
Hvert fara kjóarnir? – Miðvikudaginn 23. október 2019 frá kl. 20:00-21:30

Kjóinn er einn af einkennisfuglum Suðurnesja og einn af okkar áhugaverðustu farfuglum enda far hans eitt af þeim allra lengstu nokkurrar tegundar. Kjóinn hefur oft haft slæmt orð á sér fyrir að ræna ungum og eggjum annarra fugla en þegar hann er skoðaður í réttu ljósi sést hve ótrúlegt lífshlaup hvers einstaklings er. Þekkingarsetur Suðurnesja og Háskóli Íslands hafa stundað rannsóknir á farháttum kjóa frá árinu 2013. Í þessum fyrirlestri mun Sölvi Rúnar Vignisson kynna líf- og farhætti íslenska kjóans en fyrir þessa rannsókn var hið ótrúlega far hans lítið þekkt.

Námskeiðið er haldið í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1, Sandgerði í samstarfi við Fuglavernd.

Leiðbeinandi: Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetrinu.

Verð: Aðgangur ókeypis.

Skráning

Moltugerð fyrir byrjendur – kaffispjall – Þriðjudaginn 17. mars kl. 20:00.

Mikil vakning hefur orðið varðandi moltugerð á síðustu árum en eflaust margir sem veigra sér við að hefjast handa. Hildur Sigfúsdóttir hefur stundað moltugerð um árabil og kann ýmis góð ráð fyrir byrjendur sem hún ætlar að deila með áhugasömum í kaffispjalli í Þekkingarsetri Suðurnesja. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti.

Námskeiðið er haldið í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1, Sandgerði.

Leiðbeinandi: Hildur Sigfúsdóttir

Verð:Aðgangur ókeypis

Skráning