Námskeið

IMG_3441
Þekkingarsetur Suðurnesja mun í samstarfi við fræðslu- og menntastofnanir, standa fyrir námskeiðum og fyrirlestrum sem tengjast starfssviði setursins og stoðstofnana þess. Fyrstu námskeiðin voru haldin vorið 2013 í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Námskeiðin eru haldin í húsnæði Þekkingarseturs Suðurnesja að Garðvegi 1, Sandgerði nema að annað sé tekið fram í námskeiðslýsingu.

Námskeið á vorönn 2018:
Matarsóun og hvernig má draga úr henni – Fimmtudaginn 15. mars frá kl. 20:00-21:00.

Þriðjungi af mat sem framleiddur er í heiminum er sóað og matarsóun er stórt alþjóðlegt vandamál sem eykur meðal annars á loftslagsbreytingar. Í þessum fyrirlestri verður farið yfir orsakir og afleiðingar matarsóunar en líka hvað við sjálf getum gert til að sporna við þessu vandamáli. Það eitt að minnka matarsóun er frábær og auðveld leið til að gera heiminn aðeins betri.

Afleiðingar þess að henda til dæmis gömlum súkkulaðikexpakka eru m.a.:

  • Súkkulaðið var að öllum líkindum unnið í Vestur-Afríku þar sem stunduð er barnaþrælkun.
  • Pálmaolían í kexinu eyddi regnskógi í Suð-Austur Asíu.
  • Aukin áhrif loftslagsbreytinga því við urðun myndast metangas sem er öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð.

Námskeiðið er haldið í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1, Sandgerði.

Kennari: Dr. Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Landvernd.

Verð: Fræðslukvöldið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Flækingsfuglar á Suðurnesjum – Þriðjudaginn 10. apríl frá kl. 20:00 – 22:00.

Suðurnesin eru eitt af áhugaverðustu svæðum landsins þegar kemur að fjölbreyttu fuglalífi og þar hafa margir sjaldgæfir flækingsfuglar sést á síðustu árum. Á þessu fræðslukvöldi verður fjallað um flækingsfugla á Suðurnesjum og helstu fuglaskoðunarsvæði í máli og myndum. Fuglaskoðarar og ljósmyndarar munu kynna helstu fuglaskoðunarstaði, sýna myndir af sjaldséðum fargestum og ræða breytingar í fuglaskoðun í gegnum árin. Nýverið kom út fuglaskoðunarkort af Reykjanesi sem unnið var í samstarfi Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes Geopark og Markaðsstofu Reykjaness og verður fuglaskoðunarkortið og vefsvæði þess kynnt fyrir þátttakendum.

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Fuglavernd, Reykjanes Geopark og Markaðsstofu Reykjaness og fer fram í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1, Sandgerði.

Kennari: Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja.

Verð: Fræðslukvöldið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Skráning