Heimskautin heilla vex og dafnar

Þan 11.mars sl. heimsótti Sophie Jacob, barnabarnabarnabarn franska skipstjórans, heimskautafarans og vísindamannsins, Jean Baptiste Charcot Þekkingarsetrið ásamt fylgdarfólki.

Tilefnið var undirritun samnings milli Vinafélags Charcot (Les Amis de Jean-Baptiste Charcot), Háskóla Íslands og Suðurnesjabæjar um varðveislu og áframhaldandi samstarf vegna sýningarinnar Heimskautin heilla sem hefur verið hýst og í umsjón Þekkingarseturs Suðurnesja undanfarin ár. Sýningin var upphaflega opnuð árið 2007. Ásamt undirritun samningsins voru einnig afhjúpuð minningarorð ömmu Sophie, Anne-Marie um afa sinn, Jean Baptiste Charcot auk ljósmynda. Anne-Marie, hafði áður verið hollvinur sýningarinnar en eftir fráfall hennar árið 2017 tók dóttir hennar við umsjón erfða- og sýningargripa fjölskyldunnar ásamt börnum sínum.

Undirritaður var samningur við hátíðlega athöfn í Þekkingarsetrinu þar sem fulltrúar allra viðkomandi stofnanna og tók Jörundur Svavarsson, verndari sýningarinnar í gegnum árin ásamt Friðriki Rafnssyni, á móti gestum. Þá var sendiherra Frakklands á Íslandi einnig mættur til að heiðra samkomuna auk valinna einstaklinga úr háskólasamfélaginu á Íslandi og í Frakklandi.
Sophie last hjartnæm orð frá móður sinni og sjálfri sér þar sem hún þakkaði fyrir allt saman og minntist ömmu sinnar Anne-Marie og afa síns, Jean Baptiste.

Sophie færði sýningunni m.a. tuskudýr úr flaki Pourqoui-Pas? sem skolaði á land árið 1936 auk áttavita úr eigu Charcot en nýverið var einnig komið fyrir fleiri áttavitum, minnisbók og fleiru sem sýningin hefur safnað til sín nýlega. Enn er von á frekari uppfærslum á sýningargripum.

Dagana 17. – 18.mars nk. fer fram Safnahelgi á Suðurnesjum og gefst gestum því tækifæri á að heimsækja sýninguna Heimskautin heilla án endurgjalds og verður sýningin opnuð sérstaklega vegna safnahelgar frá 13-17 bæði laugardag og sunnudag. Einnig verður hægt að virða fyrir sér náttúrugripasýninguna okkar auk listasýningar okkar Huldir heimar hafsins. 

Sölvi Rúnar kjörinn formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags

Sölvi Rúnar

Þann 27. febrúar sl. fór fram aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Að loknu áhugaverðu erindi Sigurðar Thorlacius um áhrif matvælaframleiðslu á líffræðilegan fjölbreytileika var gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa. Þar á meðal fór fram kjör stjórnar félagsins.

Líffræðingurinn og doktorsneminn Sölvi Rúnar Vignisson hjá Þekkingarsetri Suðurnesja var þar kjörinn formaður félagsins en félagið er eitt elsta starfandi félag landsins og gefur m.a. út Náttúrufræðinginn, sem er alþjóðlegt fræðslurit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði, bæði fræðilegar og almennar.

Við mælum eindregið með því að allir skrái sig í félagið og fari þar með í áskrift að Náttúrufræðingnum í heimsendingu og styrki þannig íslensk náttúruvísindi og náttúruvernd.  

Við óskum Sölva Rúnari innilega til hamingju með kjörið en hér að neðan má sjá nýja stjórn félagsins sem kjörin var á aðalfundinum 27.febrúar sl.

  • Sölvi Rúnar Vignisson, formaður.
  • Sveinn Kári Valdimarsson, varaformaður
  • Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður.
  • Benedikt Traustason, vefstjóri.
  • Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri.
  • Einar Pétur Jónsson, kynningarstjóri.
  • María Helga Guðmundsdóttir, ritari.

Sölvi Rúnar í Víkurfréttum

Þann 16.febrúar sl. hélt líffræðingurinn og doktorsneminn Sölvi Rúnar Vignisson einstaklega áhugavert fræðsluerindi um ferðir farfuglanna og rannsóknir sínar þeim tengdum undanfarin ár.

Fræðsluerindið fór fram fyrir þéttsettnum náttúrusal Þekkingarseturs Suðurnesja og var haldið í samstarfi við Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjum en Sölvi Rúnar starfar einmitt í Þekkingarsetri Suðurnesja við rannsóknir sínar á ýmsum far- og staðfuglum. Þá er Sölvi tíður ráðgjafi í ýmsu sem tengist fuglalífi á Suðurnesjum og má nefna sem dæmi byggingu á sérstöku fuglaskoðunarhúsi í Reykjanesbæ fyrir stuttu.

Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun um störf Sölva í nýjasta tölublaði Víkurfrétta  hér og sömuleiðis spila viðtal við hann sem birtist í nýja Suðurnesjamagasíni Víkufrétta.

Við þökkum Víkurfréttum fyrir frábæra umfjöllun um þessi mikilvægu og mögnuðu störf okkar manns og hvetjum áhugasama að líta við í setrið og virða fyrir sér ýmislegt eða jafnvel láta sjá sig næst þegar Sölvi Rúnar heldur slíkan fyrirlestur og fræðsluerindi.