Markmið og hlutverk
Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað 1. apríl 2012 af öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Náttúrustofu Suðvesturlands og Keili. Þekkingarsetrið er sjálfseignarstofnun rekin af opinberum framlögum ríkis og sveitarfélaga. Þann 21. nóvember 2012 var skrifað undir samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum.
Þekkingarsetur Suðurnesja starfar á þekkingargrunni Fræðaseturs Sandgerðisbæjar, Botndýrastöðvarinnar, Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands. Starfsemin tekur mið af markmiðum, hlutverki og skyldum allra stofnananna.
Markmið Þekkingarseturs Suðurnesja snúa meðal annars að:
1. Rannsóknum og þróun
2. Háskólanámi og samþættingu þekkingarstarfs
3. Símenntun og samstarfi við aðrar menntastofnanir á Suðurnesjum
Nánar má lesa um markmið setursins og starfsemi þess hér.
Þekkingarsetur Suðurnesja er aðili að Reykjanes UNESCO Global Geopark. UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. UNESCO Global Geoparks eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun. Hér má finna frekari upplýsingar um Reykjanes Geopark.
Þekkingarsetrið er einnig aðili að alþjóðlegu neti rannsóknastöðva á arktískum og fjalllendum svæðum á norðurhveli jarðar sem kallast INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic). Meginhlutverk INTERACT er að byggja upp aðstöðu og þekkingu til að skilgreina og bregðast við umhverfisbreytingum á norðlægum slóðum og hefur starfsemin verið fjármögnuð með styrkjum úr rammaáætlunum Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun. Hér er hægt að lesa meira um INTERACT.