Fræðsla

IMG_5818
Þekkingarsetur Suðurnesja býður upp á fræðslu fyrir skólahópa og almenning í náttúrufræði og tengdum greinum. Hjá setrinu eru tvær sýningar sem eru fróðleg og skemmtileg viðbót við kennslu á öllum skólastigum, til dæmis í náttúrufræði, sögu og frönsku. Annars vegar er um að ræða náttúrugripasýningu, sem tilvalið er að flétta útikennslu og vettvangsnám saman við, og hins vegar sögusýninguna Heimskautin heilla. Hér má fá frekari upplýsingar um fræðslu fyrir skólahópa.

Eitt af hlutverkum Þekkingarsetursins er að auka menntunarmöguleika á svæðinu, meðal annars í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Setrið býður reglulega upp á fjölbreytt og skemmtileg símenntunarnámskeið í tengslum við starfssvið sitt. Lesið um næstu námskeið hér.

Raungreinabúðir á Reykjanesi


GeoCamp Iceland hefur síðustu ár unnið að þróun raungreinabúða á Reykjanesi í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Keili og Þekkingarsetrið. Vorið 2020 hlaut Þekkingarsetrið fjármagn úr ríkissjóði, í gegnum samning við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, til að vinna að eflingu þekkingarstarfsemi á Suðurnesjum og þá sérstaklega eflingu menntunar og áhuga barna og ungmenna á sviði náttúruvísinda. Ákveðið var að nýta stóran hluta fjármagnsins til áframhaldandi þróunar raungreinabúða á Reykjanesi sem hefur nú staðið yfir í setrinu síðan í byrjun september 2020. Sumarið 2021 er stefnt að prufukeyrslu raungreinabúðanna fyrir lítinn hóp nemenda sem hafa lokið 9. bekk. Þá verður einnig boðið upp á sumarnámskeið fyrir náttúrufræðikennara í grunn- og framhaldsskólum í ágúst, í samstarfi við Keili. Tveir háskólanemar verða við sumarstörf í setrinu til að koma að framkvæmd raungreinabúðanna. Nánari upplýsingar um báða viðburði verða aðgengilegar hér þegar nær dregur.