Þriðji ársfundur Þekkingarsetra og sambærilegra stofnana var haldinn hjá Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi í síðustu viku. Átta stofnanir víðsvegar af landinu eru hluti af hópnum og hafa forstöðumenn þeirra hist á fundum síðustu tvö ár til að kynnast starfsemi hinna setranna og bera saman bækur sínar.
Þessi þriðji fundur var bæði gagnlegur og skemmtilegur en þar hélt Andrés Pétursson, sérfræðingur hjá Rannís, meðal annars kynningu á styrktarsjóðum sem eru í umsýslu Rannís auk þess sem Þórarinn Sólmundarson, sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fjallaði um skýrslu ráðuneytisins um háskóla og vísindi og stefnumótun í ráðuneytinu.