Föstudaginn 24. maí var Sandgerðisbæ afhent glæsileg gjöf frá afkomendum Þórhalls Gíslasonar, fyrrum skipstjóra frá Sandgerði. Þórhallur varð 95 ára þann 14. maí 2011 og í tilefni af afmælinu fékk sonur hans, Jónas Karl Þórhallsson, þá hugmynd að láta útbúa skjöld með nöfnum aflakónga á vetrarvertíð í Sandgerði á árunum 1939-1991 og gefa föður sínum í afmælisgjöf frá systkinunum. Sjálfur var Þórhallur aflahæsti skipstjórinn nokkrum sinnum á þessu 52 ára tímabili og aflakóngarnir í þessum hópi oft á tíðum einnig aflahæstir á landinu.
Skjöldurinn var afhjúpaður við hátíðlega athöfn í Þekkingarsetri Suðurnesja, þar sem hann verður varðveittur og til sýnis. Margir aflakóngar Sandgerðisbæjar frá fyrri tíð voru viðstaddir athöfnina.