Þekkingarsetur Suðurnesja, ásamt stoðstofnunum þess Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum, varð á dögunum 71. aðili að INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Artic). INTERACT er alþjóðlegt net rannsóknastöðva á norðlægum slóðum sem fengið hefur fjármögnun úr rammaáætlunum Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun. Meginhlutverk INTERACT er að byggja upp aðstöðu og þekkingu til að skilgreina og bregðast við umhverfisbreytingum á norðlægum slóðum.
Í aðild Þekkingarsetursins að INTERACT felast margskonar tækifæri fyrir starfsemi og rekstur setursins og stoðstofnana þess, auk samstarfsmöguleika við fjölmarga erlenda vísindamenn og rannsóknastofnanir á norðurslóðum.
Tvær aðrar íslenskar rannsóknastöðvar eru aðilar að INTERACT, Rannsóknastöðin að Litla-Skarði í Borgarfirði og Rannsóknastöðin Rif á Raufarhöfn.