Þekkingarsetur Suðurnesja er aðili að samstarfsverkefni Sandgerðisbæjar með finnska sveitarfélaginu Mänttä-Vilppula, en verkefnið er styrkt af Comenius Regio hluta Menntaáætlunar ESB. Markmið verkefnisins er að tengja betur saman skóla og stofnanir sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á náttúrufræði og listir. Grunnskólinn og leikskólinn í Sandgerði, Rannsóknasetur Hí á Suðurnesjum, Náttúrustofa Suðvesturlands og Listatorg eru þátttakendur í verkefninu auk Þekkingarsetursins.
Í lok apríl sl. var annar fundur verkefnisins haldinn og fóru þá fulltrúar stofnananna hér í bænum í heimsókn til Finnlands. Ferðin gekk mjög vel og voru vinnufundir árangursríkir. Við heimsóttum bæði grunn- og leikskóla, listasafn og nokkur gallerý. Hópnum var einnig boðið í íslenska sendiráðið í Helsinki og til bæjarstjóra sveitarfélagsins Mänttä-Vilppula. Verkefnið er til tveggja ára og lýkur sumarið 2015. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr ferðinni.