Reykjanes Geopark fær alþjóðlega vottun

RGP — CMYK Merki hringur x4Laugardagskvöldið 5. september, var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Rokua Geopark í Finnlandi að Reykjanes Geopark fengi aðild að samtökunum European Geoparks Network. Um er að ræða samtök svæða sem eru jarðfræðilega merkileg. Samtökin njóta stuðnings UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða mikla viðurkenningu fyrir íbúa og atvinnurekendur á svæðinu en aðild að samtökunum nýtist til markaðssetningar, fræðslu og uppbyggingar á Reykjanesinu. Reykjanes Geopark nær yfir allt land sveitarfélaga Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga og er samtals 825 km2 að stærð. Reykjanes Geopark líkt og aðrir slíkir staðir vinnur að því að vekja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu, menningarsögu, fræða og annast landið.

Fræðsla, uppbygging innviða og aukið markaðsstarf
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík tók á móti viðurkenningunni á haustfundi European Geopark Network í Rokua Geopark í Finnlandi í gærkvöldi. Samkvæmt Róbert er „stefna sveitarfélaganna á Reykjanesi og ferðaþjónustunnar á svæðinu að leggja áherslu á jarðminjar svæðisins og vellíðunar ferðamennsku í markaðsstarfi svæðisins. ,,¬Við erum GEO, með flekaskilin, gígaraðir, háhitasvæði, jarðvarma og Bláa Lónið. Við erum líka með frábæra náttúru og aðstöðu til vellíðunar ferðamennsku. Hreyfing, slökun, hugleiðsla og spa er okkar aðalsmerki. Við viljum auka vitund íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans í jarðfræðilegu tilliti og koma sögu svæðisins á framfæri. Þetta er m.a. gert með aukinni fræðslu og styrkingu innviða ferðaþjónustunnar“. Aðspurður um næstu skref segir Róbert: „Reykjanes Geopark er nú aðili að European Geoparks Network. Við munum njóta ávinnings af samstarfinu þar m.a. með auknu markaðsstarfi og aðgengi að evrópsku neti sérfræðinga. Nú reynir á ferðaþjónustuna, sveitarfélögin og aðra hagsmunaðila að nýta sér Reykjanes Geopark í starfsemi sinni, t.d. markaðssetningu.“

Unnið að aðild síðan 2012
Hugmyndir um einhverskonar jarðminjagarð á Reykjanesi hafa verið lengi í bígerð. Unnið hefur verið affullum krafti að Reykjanes Geopark síðan 2012 á vegum Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Þar skipti miklu máli að samstaða var um verkefnið á hjá sveitarfélögum og hagsmunaðilum en auk sveitarfélaganna fimm og atvinnuþróunarfélagsins eru Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa Lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir – miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs auk HS Orku aðilar að Reykjanes Geopark. Reykjanes er annað svæðið á Íslandi til að fá umrædda vottun en Katla Geopark fékk aðild að samtökunum 2011. Aðild Kötlu Geopark að samtökunum var endurnýjuð í gærkvöldi.

Nánari upplýsingar veitir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík og formaður stjórnar Reykjanes Geopark í síma 660-7300 og gegnum netfangið robert@grindavik.is.