Mikið fjör hefur verið hérna hjá okkur í Þekkingarsetrinu síðustu vikur því yfir 1.000 nemendur úr leik- og grunnskólum hafa heimsótt okkur í maí og júní. Krakkarnir voru á öllum aldri, sumir héðan af Suðurnesjum en aðrir af höfuðborgarsvæðinu.
Flestir skólanna fóru með nemendur í fjöruferð sem gengu vel, þrátt fyrir leiðinlegt veður oft á tíðum, og nemendur komu klyfjaðir tilbaka af ýmsum furðudýrum úr fjörunni.
Nemendur fá að borða nestið sitt um borð í skipi Jean-Baptiste Charcot sem líkt er eftir á sýningunni Heimskautin heilla. Sumir hóparnir grilluðu líka pylsur fyrir utan.
Það er margt að sjá í Þekkingarsetrinu og vekja lifandi sjávardýrin alltaf mikla athygli. Ef að krakkarnir finna einhver dýr á lífi í fjörunni fá þeir að bæta þeim í búrin.
Við þökkum öllum þeim nemendum og kennurum sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna, vonum að þið hafið haft bæði gagn og gaman að!