Mikið mengunarálag í íslenskum höfnum

Frétt tekin af vef Háskóla Íslands

„Niðurstöðurnar í þessari rannsókn eru sláandi og hafa sýnt fram á fjölbreytilegt mengunarálag í íslenskum höfnum, hvort sem litið er til efnainnihalds í seti og dýrum eða áhrifa efnanna á lífverur.“

Þetta segir Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, en HÍ rekur slík rannsóknasetur víða um land sem eru í mjög nánum tengslum við þjóðlífið þar sem þau starfa. Undanfarið hefur Halldór Pálmar leitt rannsókn sem snýst um að meta mengunarálag í íslenskum höfnum með ýmsum aðferðum og greiningum á lífverum og seti en hafnarsvæði eru með helstu mengunaruppsprettum í sjó hér við land að sögn vísindamannsins.

Þegar hann er spurður um áhrifin á lífverur í höfnum er hann skjótur til svars. „Sem dæmi má nefna frumuskemmdir, áhrif á erfðaefni og lífeðlisfræði kræklings og hormónaraskandi áhrif á nákuðunga af völdum tributyltins eða TBT. Það efni var áður notað í botnmálningu á skip og báta til að hindra vöxt lífvera. Áhrif TBT sjást enn í dag þrátt fyrir að það hafi verið bannað hér á landi frá árinu 1990 en það getur bundist lífrænum ögnum, safnast upp í seti og losnað aftur út í lífríkið jafnvel áratugum saman. Efnið veldur því að sáðrás og typpi myndast hjá kvendýrum og eru þessi áhrif kölluð falskyn eða imposex.“

Halldór Pálmar segir að þrátt fyrir að búast megi við fjölbreytilegu mengunarálagi af völdum ýmissa efna í höfnum og nærliggjandi svæðum hafi þetta verið lítið rannsakað en sú staðreynd hafi í raun verið kveikjan að rannsókninni og ástæðan fyrir því að hann valdi þetta viðfangsefni.

Kynntist viðfangsefninu þegar hann var sjálfur til sjós

Það dró ekki úr áhuga Halldórs Pálmars á lífríki hafsins að hann var á sjó í nokkur ár áður en hann hóf nám við HÍ og sá þá vel að eigin sögn hversu mikið mengunarálag gat verið í íslenskum höfnum. Reyndar má segja að Halldór Pálmar hafi ekki alveg sagt skilið við sjóinn því hann er líklega eini skipstjórinn sem starfar við HÍ en Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum hefur til umráða bátinn Sæmund fróða sem nýttur er til fjölbreyttra rannsókna á lífríki á strandsvæðum. Eins og ráða má af staðsetningu rannsóknasetursins, sem er í Sandgerði, þá er það í nánum tengslum við samfélag á Suðurnesjum og sinnir afar mikilvægum rannsóknum á lífríki sem snerta mjög fjölbreytt atvinnulíf, ekki bara þar heldur jafnvel víða um heim.

Með þeirri brýnu vinnu sem Halldór Pálmar hefur stundað undanfarin ár ásamt samstarfsfólki sínu í Sandgerði og raunar víðar hefur gefist kjörið tækifæri til að meta notagildi ýmissa líffræðilegra mælikvarða eða svokallaðra bíómarkera í mengunarrannsóknum á norðlægum slóðum „og þá jafnframt að kanna hvort lífríkið sé undir álagi af völdum mengandi efna en þetta eru til dæmis þungmálmar og efni sem koma úr olíum og botnmálningu skipa,“ segir Halldór Pálmar.

„Rannsóknir á mengandi efnum og áhrifum þeirra hafa mikið samfélagslegt gildi þar sem slík vitneskja er grunnurinn að því að hægt sé að bregðast við og til dæmis hætta eða minnka losun okkar mannanna á óæskilegum efnum út í umhverfið. Aukin þekking á þessu sviði stuðlar þannig að ábyrgari hegðun okkar mannanna gagnvart náttúrunni,“ segir Halldór Pálmar 

Rannsóknir með mikið samfélagslegt gildi

Halldór Pálmar hefur ekki bara verið afkastamikill vísindamaður því hann hefur líka verið duglegur við að miðla þekkingu og fróðleik til almennings í ýmsu formi. Þannig hefur hann verið duglegur að veita svör við allskyns spurningum um lífríki hafsins á Vísindavef Háskóla Íslands. Hann hefur líka leitt göngur fyrir almenning í röðinni Með fróðleik í fararnesti sem vann nýverið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís. Þessar vinsælu göngur Háskóla Íslands hafa veri í samstarfi við Ferðafélag Íslands frá árinu 2011.

Áhugi Halldórs Pálmars liggur fyrst og fremst á sviði eiturefnavistfræði en með rannsóknum á því sviði er hægt að segja til um hvort og þá á hvaða hátt mengun skiptir máli fyrir lífríkið. „Slíkar rannsóknir, eins og rannsóknir almennt, skipta höfuðmáli upp á að geta tekið upplýstar ákvarðanir náttúrunni og framtíðarkynslóðum til heilla,“ segir vísindamaðurinn.

Vart þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að rannsaka áhrif mannsins á lífríkið og ekki síst hafið hér við land þar sem Íslendingar reiða sig á það sem auðlind í mjög víðtækum skilningi. Rannsókn sem þessi getur hreinlega verið mikilvægur stuðningur við opinbera stefnumótun í því að vernda strandsvæði. Þar fyrir utan er þessi rannsókn í beinum tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem vikið er sérstaklega að lífríki hafsins og manninum sett brýn markmið varðandi verndun sjávar. Í heimsmarkmiðunum stendur að eigi síðar en árið 2025 verði verulega dregið úr og komið í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi. Þessi rannsókn er einnig í afar sterkum tengslum við stefnu skólans, HÍ26 þar sem tilgreint er að öflug þátttaka háskólasamfélagsins sé forsenda þess að Ísland geti lagt lóð á vogarskálar heimsmarkmiðanna.

„Rannsóknir á mengandi efnum og áhrifum þeirra hafa mikið samfélagslegt gildi þar sem slík vitneskja er grunnurinn að því að hægt sé að bregðast við og til dæmis hætta eða minnka losun okkar mannanna á óæskilegum efnum út í umhverfið. Aukin þekking á þessu sviði stuðlar þannig að ábyrgari hegðun okkar mannanna gagnvart náttúrunni, heilnæmara umhverfi og verndun hafsins á sjálfbærari hátt með því að koma eins og mögulegt er í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríkið.“

Halldór Pálmar í Sæmundi fróða
Það dró ekki úr áhuga Halldórs Pálmars á lífríki hafsins að hann var á sjó í nokkur ár áður en hann hóf nám við HÍ og sá þá vel að eigin sögn hversu mikið mengunarálag gat verið í íslenskum höfnum. Reyndar má segja að Halldór Pálmar hafi ekki alveg sagt skilið við sjóinn því hann er líklega eini skipstjórinn sem starfar við HÍ en Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum hefur til umráða bátinn Sæmund fróða sem nýttur er til fjölbreyttra rannsókna á lífríki á strandsvæðum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fjölbreytt fræðsla á Líffræðiráðstefnu

Líffræðiráðstefnan fór fram um síðustu helgi í húsakynnum Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar en þar stigu í pontu þorri starfsfólks allra þeirra stofnanna sem finnast innan Þekkingarseturs Suðurnesja.

Þau Sindri Gíslason og Joana Micael fluttu erindi Náttúrustofu Suðvesturlands; Non-indigenous species and the marine aquarium trade in Iceland (Micael) og A new mollusc in town: Ensis terranovensis invades Iceland (Gíslason) en seinna erindið fjallaði einmitt um fund nýrrar tegundir, Sindraskeljar, sem er vægast sagt áhugavert.

Halldór Pálmar Halldórsson leiddi þríeyki frá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands á Suðurnesjum með Monitoring and impact of tributyltin (TBT) the past 30 years near Icelandic harbours, sem hann hefur unnið ásamt þeim Hermanni Dreka Guls, Söndru Dögg Georgsdóttir og Jörundi Svavarssyni um nokkurt skeið. Sandra Dögg hélt þá erindið The effects of pollutants on blue mussel (Mytilus edulis) in harbours in Suðurnes assessed using biomarkers.

Þá hélt  Sölvi Rúnar Vignisson erindið Oystercatchers on the move. 

Auk erindanna voru birt nokkur ný veggspjöld frá stofnunum innan setursins um vöktun bjarfugla á Íslandi frá árinu 2009 til ársins 2022 (samstarfsverkefni Náttúrustofu, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunnar og fleiri aðila), Ný tegund í Atlantshafi – Svartserkur (Melanochlamys diomedea (Bergh, 1894) sem Náttúrustofa birtir ásamt Hafrannsóknarstofnun og Eru íslenskar hafnir mengaðar? frá Rannsóknarsetri HÍ á Suðurnesjum.

Líffræðiráðstefnan er haldin annað hvert ár hér á landi og er stærsti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Það er því mikill heiður að slík flóra vísindamanna starfandi undir þaki Þekkingarseturs Suðurnesja stimpli sig svo ærlega inn þetta árið.

 

Starfsgreinakynning SSS í kastljósi Víkurfrétta

Starfsgreinakynning SSS var haldin þann 5. október sl. en það er Þekkingarsetur Suðurnesja sem sér um framkvæmd kynningarinnar. Víkufréttir litu við í heimsókn og tóku m.a. þau Hönnu Maríu Kristjánsdóttur og Sölva Rúnar Vignisson frá Þekkingarsetri Suðurnesja tali auk þess að ræða við úrval gesta og gangandi í íþróttahúsinu við Sunnubraut.

Víkufréttir smellti einnig af nokkrum myndum frá viðburðinum sem skoða má hér