Hvalir syngja í Þekkingarsetrinu

Þekkingarsetur Suðurnesja hóf starf sitt í vetur með nokkuð breyttum áherslum frá fyrri árum. Til starfa í setrinu er tekin Dr. Anna Selbmann en Anna tekur við störfum Sölva Rúnars Vignissonar sem líf- og vistfræðingur Þekkingarseturs Suðurnesja.

Anna lauk mastersnámi sínu við Háskóla Íslands árið 2019 og varði doktorsritgerð sína þar fyrr á þessu ári. Sérsvið Önnu og þar með enn eitt  sérsvið Þekkingarsetursins lítur að rannsóknum á hvölum og hefur Anna verið iðin við rannsóknir víða og þá sér í lagi í og við Vestmannaeyjar undanfarin ár.

Þekkingarsetur Suðurnesja býður Önnu hjartanlega velkomna til starfa en framundan er fyrsta stóra verkefni setursins er tengist hvölum og nefnist það Hvar eru hvalirnir? Aðalmarkmið verkefnisins er að leita að hvölum á Suðurnesjum og safna gögnum um viðveru tegunda hvala á svæðinu með notkun hljóðdufla og margvíslegrar vöktunar víðsvegar á Reykjanesi.
Þá verður verkefnið unnið í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun, Háskóla Íslands og ýmsar alþjóðlegar stofnanir auk þess sem íbúar svæðisins verða hvattir til þátttöku en vonast er til þess að verkefni, sem ráðgert er til næstu fimm ára, opni ný tækifæri til nýsköpunar og þróunar atvinnulífs og menningar á svæðinu. Vænta má frekari fregna af þessu spennandi verkefni á næstunni.

Hér má kynna sér rannsóknir Önnu á samskiptum milli tveggja rándýra í sjó sem Anna vann út frá styrk úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands árið 2022.