Á neðri hæð Þekkingarsetursins er að finna lista- og fræðslusýninguna Huldir heimar hafsins – ljós þangálfanna. Sýningin var opnuð 22. mars 2015 á alþjóðlegum degi vatnsins og er tileinkuð minningu Guðmundar Páls Ólafssonar, rithöfundar og náttúrufræðings, sem skrifað hefur einstakar bókmenntaperlur um náttúru Íslands.
Um er að ræða einkar fallega og fróðlega sýningu þar sem vísindalegum fróðleik um mikilvægi hafsins og hættur sem að því steðja er fléttað saman við ævintýraheim þangálfanna. Leitast er við að vekja fólk til vitundar um þann undraheim sem hafið er, mikilvægi þess fyrir lífríki jarðarinnar og tengingu mannkynsins við náttúruna.
Tilvalið er að nota sýninguna til að fræða nemendur á öllum skólastigum um hafið og sjálfbærni. Hægt er að fá sértök verkefnablöð fyrir nemendur sem vinna má í tengslum við sýninguna.
Það er listakonan Katrín Þorvaldsdóttir, í samvinnu við Þekkingarsetur Suðurnesja, sem standa að sýningunni.
Hugsmiðir sýningarinnar eru Katrín Þorvaldsdóttir og Eydís Mary Jónsdóttir, Júlíus Viggó Ólafsson er tónsmiður sýningarinnar, Reynir Sveinsson sá um tæknileg atriði og um grafíska uppsetningu texta sá Lúðvík Ásgeirsson hjá Viking design. Skeljar, kuðungar og önnur sjávardýr sem prýða sýninguna var safnað af Árna Bergi Sigurbergssyni, sem ánafnaði Fræðasetrinu í Sandgerði, forvera Þekkingarsetursins, safn sitt.