Dagana 24. – 27. janúar fór fundur rannsóknarsamtakanna INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic) fram hér á Suðurnesjum. Þekkingarsetur Suðurnesja ásamt stoðstofnunum þess eru aðilar að samtökunum, ásamt 78 öðrum háskólum og rannsóknastöðvum viðsvegar um heiminn.
INTERACT er alþjóðlegt net rannsóknastöðva á norðlægum slóðum sem fékk nýverið styrk úr Horizon 2020 sjóði Evrópusambandsins til áframhaldandi starfs. Var fundurinn hér á Suðurnesjum sá fyrsti í nýrri fjögurra ára starfslotu. Meginhlutverk INTERACT er að byggja upp aðstöðu og þekkingu til að skilgreina og bregðast við umhverfisbreytingum á norðlægum slóðum.
Þekkingarsetrið kom að skipulagningu fundarins en á honum voru alls 57 manns, þar af komu um 50 erlendis frá. Fundurinn var haldinn á Park Inn by Radisson hótelinu í Keflavík og gekk hann einstaklega vel.
Byrjað var á að heimsækja Þekkingarsetur Suðurnesja þar sem þátttakendur fengu kynningu á rannsóknarstarfi þess og leiðsögn um aðstöðuna. Eftir kynninguna gæddu þeir sér svo á ljúffengri sjávarréttasúpu frá Vitanum. Hópurinn fór einnig í ferð um Reykjanesið undir skemmtilegri leiðsögn Ólafs Jóns Arnbjörnssonar, skólastjóra Fisktækniskólans, og skelltu sér svo í Bláa lónið.
Með fundinum fékk Þekkingarsetrið og stoðstofnanir þess gott tækifæri til þess að kynna starfsemi sína, sem vonandi á eftir að fjölga heimsóknum erlendra vísindamanna í setrið.