Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn á Húsavík í síðustu viku. Um sjötíu manns sóttu fundinn. Á fundinum voru m.a. kynntar rannsóknir sem unnar eru við rannsóknasetur HÍ víðsvegar um landið. Soffía Karen Magnúsdóttir, meistaranemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum sem er önnur stoðstofnana Þekkingarsetursins, kynnti þar rannsókn sína á mögulegu eldi á evrópska humrinum á Íslandi, sem fer nú fram hér í Sandgerði.
Heimkynni evrópska humarsins eru í hlýjum sjó Miðjarðarhafsins, Svartahafsins og við Atlantshafsstrendur Frakklands, Bretlands og Spánar. Því er hann ræktaður í upphituðum sjó hér í rannsóknaraðstöðu Þekkingarsetursins. Við kjöraðstæður getur evrópski humarinn orðið allt að sextíu sentímetrar að lengd og sex kílóa þungur og þykir hinn ljúffengasti veisluréttur.
Soffía Karen Magnúsdóttir, meistaranemi
Það er Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra fyrirtækisins Svinna-Verkfræði ehf, sem hefur umsjón með rannsókninni en hún er gerð í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Þekkingarsetur Suðurnesja, auk tveggja erlendra fyrirtækja.
Evrópski humarinn (Mynd: Halldór Pálmar Halldórsson)