5. bekkur í Sandgerðisskóla færði á dögunum Þekkingarsetri Suðurnesja glæsilegt málverk af Sandgerðistjörn sem nemendur unnu í tengslum við tjarnarverkefni sem er samvinnuverkefni Sandgerðisskóla og Þekkingarsetursins. Verkefnið er hluti af samstarfsverkefni Sandgerðisbæjar með finnska sveitarfélaginu Mänttä-Vilppula, sem er styrkt af Comenius Regio hluta Menntaáætlunar ESB. Markmið verkefnisins er að tengja betur saman skóla og stofnanir sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á náttúrufræði og listir. Grunnskólinn og leikskólinn í Sandgerði, Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum, Náttúrustofa Suðvesturlands og Listatorg eru þátttakendur í verkefninu auk Þekkingarsetursins.
Krakkarnir hafa undanfarnar vikur fræðst um dýralíf tjarnarinnar, farið var í tjarnarveiðiferð með sérfræðingum Þekkingarsetursins og dýrin sett í búr á efri hæð setursins þar sem m.a er hægt að sjá vatnabobba, kringlubobba, tjarnatítur, hornsíli og brunnklukkur. Krakkarnir hafa unnið frábært starf og hvetjum við alla til að koma við í Þekkingarsetrið og líta listaverkið augum.